Þiggjendaþjóðfélagið

Mér er farið að líða frekar illa í íslensku samfélagi.Hvert sem litið er snýst umræðan um hvað ég get fengið frá öðrum,helst án þess að lyfta litlafingri.Hvar eru menn eins og Þorvaldur í Síld og Fisk,sem var stoltur af því að vera hæsti skattgreiðandi landsins.Hvar eru "vinnuveitendur",mér finnst það miklu jákvæðara orð heldur en "samtök atvinnulífsins".Og hvað um alla "þegana",launþegar,styrkþegar o.s.frv.Ég vil láta banna þessi "þegaorð",ég fæ það á tilfinninguna að þessir "þegar" séu að fá eitthvað sem þeir eiga ekki skilið.Þessi hugleiðing snýst kannski mest um hálffulla eða hálftóma glasið,og mér sýnist við lifum þessa stundina í hálftóma glasinu.Og því miður virðist stór hluti þeirra sem við höfum ráðið til að stjórna okkar málum,vera í sjálfsvorkun og djúpu þunglyndi svo þaðan kemur ekkert jákvætt.Með von um upprisu  höfðingja og barmafullan bikar í framtíðinni svo við getum skálað við erlenda höfðingja uppréttir og á okkar forsendum.

Lýðræðið fallið

Viðbrögð stjórnvalda við dómi hæstaréttar í stjórnlagaþingsmálinu er í raun dauðadómur yfir lýðræði Íslands.Virðing þeirra gagnvart hæstarétti er engin,virðing þeirra gagnvart umbjóðendum sínum er engin,öll þeirra virðing beinist að skýrslubákninu í Brussel.Til hvers háðum við þorskastríðin, var það til að bjóða þessum sömu þjóðum landhelgina á silfurfati nokkrum árum seinna?Virðing mín fyrir þessum einræðisráðherrum er kominn vel niður fyrir núllið,líklega þurfum við að líta til miðausturlanda til að sjá hvernig þessir einræðistilburðir enda.En á meðan er "lýðræði"aðeins fallegt orð í íslensku.

Talnaleikur

Ríkisstjórnin gumar sífellt af meirihluta sínum á alþingi og hún hafi umboð til allra sinna verka.Ef við skoðum þetta aðeins nánar þá er nýleg könnun á trausti almennings til alþingis sú að innan við 10% ber traust til alþingismanna.Segjum að þetta séu um 27000 manns,stjórnin hefur nauman meirihluta þannig að ætla má að þingmenn stjórnarinnar hafi traust um það bil 14500 manns.Ekki ónýtur meirihluti það.

Vanhæfni kerfisins

Ekki hef ég skoðað hvernig alþingi er samsett hvað varðar skiptingu í starfsstéttir.Hitt veit ég að það endurspeglar engan veginn skiptinguna í þjóðfélaginu.Grun hef ég um að háskólasamfélagið eigi þar 9 af hverjum 10,og eru lögfræðingar þar mjög áberandi.Spurningin er,hvers vegna er allt þetta klúður í nánast öllum málum er varða lögfræðilega útfærslu?Ég spyr hvort ríkisstjórnin hafi sett félagsfræðingana sem enginn má vita hverjir eru í lögfræðiþáttinn og lögfræðingana í félagslega þáttinn.Síðasta klúðrið,stórnlagaþingið,var eitthvað sem ég batt vonir við að léti frá sér fara eitthvað af viti,en viti menn,þingið átti að starfa eftir fyrifram ákveðinni línu og síðan stóð til að skipta því í elítu og undirmenn.Þar fyrir utan var búið að skipa forseta þingsins óformlega áður en þingið sjálft var farið að ræða saman.Nú er allt í uppnámi,og hvað ætla bændur að gera,fara í kringum hæstarétt til að halda forsetanum inni og skipa hann formann nefndar í staðinn.Hvað segja lögfræðingarnir á alþingi við því að æðsti dómstóll landsins sé gerður nánast ómerkur.Svo hvað varðar ábyrgð stjórnsýslunnar á öllu klúðrinu,kæmi það mér ekki á óvart þó ég sæti uppi með ábyrgðina einn daginn.

Siðgæði hér heima og erlendis.

Þær fréttir voru að berast úr Bretaveldi, að þingmaður einn var dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir að svíkja út rúmar 3 milljónir úr sjóðum almennings.Var það gert með því að rukka leigu fyrir eigið húsnæði og húsnæði venslafólks.Nú geri ég ráð fyrir að bresk lög séu nokkuð skýr hvað varðar ábyrgð,skyldur og siðgæði opinberra starfsmanna,því fréttir berast ört af afsögnum manna sem hafa misstigið sig í starfi.Fyrir nokkrum árum bjó ég í Danmörku,fréttist þá af opinberum starfsmanni sem hafði haldið við ritara sinn um skeið og var honum gert að segja af sér embætti med det samme.Ekki var það framhjáhaldið sem fór fyrir brjóstið á frændum okkar,heldur það að hann notaði íbúð í almannaeigu til framhjáhaldsins.Hér aftur á móti virðast ekki vera til lög og eða siðgæðisreglur sem opinberir aðilar þurfa að fara eftir.Í þau rúmlega 40 ár sem ég hef fylgst með íslenskri pólitík,hefðu mannaskipti á alþingi og víðar í kerfinu átt að vera mikið örari.Siðgæðisvitundinni hefur hrakað jafnt og þétt,og er t.d.alþingi að súpa seyðið af því nú.Um og jafnvel innan við 10% ber traust til alþingis.Hæstiréttur dæmdi sig í haust sem handbendi ríkisstjórnar og fjármálageirans með því að dæma vexti á lán,sem hinn sami hæstiréttur hafði dæmt ólögleg skömmu áður.Að mínu mati mætti sem best gefa alþingi frí í tvö til þrjú ár,ekki er langt síðan Reykjavíkurborg var stjórnlaus í hálft ár,og almenningur varð ekki var við það.Flokkunum veitti heldur ekki af þessu fríi til að endurskoða innra starf og síðast en ekki síst að finna leiðtoga sem kjósendur geta treyst,

Athyglisverð auglýsing

Í blöðunum getur að líta auglýsingar frá SFF samtökum fjármálafyrirtækja þar sem viðskiftavinir eru áminntir um aö sanna tilveru sína.Einhvern veginn finnst mér að SFF verði að byrja á því,að sanna fyrir viðskiftavinum sínum að þessi fyrirtæki séu einhvers trausts verð,áður en ráðist er á æru viðskiftavinanna.Ég reikna með að bankarnir eigi aðild að þessum samtökum,og eins og staðan er í dag er traustið á þeim ekki mikið.Spurningin er hvort viðskiftavinir fjármálafyrirtækja verði ekki að fara fram á vottun um heiðarleika og heilbrigði svo þeir geti áhyggjulaust átt viðskifti við þau.

Fundur um atvinnumál?

SA hélt fund um atvinnumál í morgun.Ekki veit ég hvort fundarmenn almennt græddu eitthvað á orðagjálfrinu,hitt veit ég, að ég hefði betur farið í sund.Vilhjálmur Egils byrjaði á því að upplýsa fundarmenn um hvað þyrfti að koma til,svo landið rétti úr kútnum.Giska ég á að þar sé komin væntingavísitala SA.Síðan steig Steingrímur á stokk og hélt mikla varnarræðu fyrir hönd umhverfisráðherra,og upplýsti okkur hin um að allt liti mikið betur út en spáð hefði verið.Bara ef ekki væri fyrir Icesafe,þá væri kreppan sennilega búin.Væntingavísitala VG? Gylfi ASÍ forseti hótaði því að kreppan dýpkaði og drægist á langinn ef ekki yrði samið um ICEsafe.Einnig hafði hann uppi orð um stöðugleika,sem ekki væri að finna annarsstaðar en í ESB.Síðast þegar ég hlustaði á fréttir var eini stöðugleikinn innan ESB stöðugt atvinnuleysi.Væntingavísitala ASÍ?Ég sit eftir jafnnær um hvort eitthvað er verið að gera til að ráða bót á atvinnuleysinu eða ekki.Það sem kom kýrskírt fram var að almenni vinnumarkaðurinn tæki á sig nánast allt atvinnuleysið og þar með obbann af fórnarkostnaðinum,en opinberi geirinn yrði verndaður.

Maybe I should have.


 Ég vil óska Gunnari,Lilju,Heiðu og Herbert til hamingju með innleggið,og skora á alla að bregða sér í bíó.Sérstaklega hefðu þingmenn,bankastjórar og háttsettir opinberir embættismenn gott af að láta vekja sig af værum blundi,og reyna að átta sig á, út á hvað allt bullið hefur gengið.Kannski væri réttast að myndin yrði sýnd í upphafi þings,og þá á eftir blessuninni,svo þingheimur nái áttum og haldi ekki að  þeirra hlutverk sé að leika Guð,heldur séu þeir í vinnu hjá þjóðinni en þjóðin ekki í vinnu hjá þeim.

Áfram nýtt Ísland

Þórður Einarsson


ER dóms og réttarkerfið ónýtt

Það hefur verið forvitnilegt að fylgjast með þeim málum sem upp hafa komið,í og eftir hrun, og eru rannsökuð sem sakamál.Tvei undirmálsmenn hafa verið dæmdir fyrir að reyna að bjarga fyrirtækinu sem þeir unnu hjá,að vísu með vafasömum hætti,en fengu víst ekki einu sinni borgaða yfirvinnu fyrir.Nú er verið að yfirheyra fjórmenninga sem sáu sér leik á borði og ætluðu að blóðmjólka íslenska þrotabúið áður en útlendingar hirtu allt saman.Ekki veit ég deili á þessum mönnum þrátt fyrir nafnabirtingu,en af einhverjum undarlegum ástæðum,er ekki ásæða til að fara fram á gæsluvarðhald.Gæti það verið að þeir eigi "Hauk í Horni"eða er réttarkerfið hér svo vanmáttugt,að þessir menn fá tíma til að fela fé og slóðir,eins og allir banka og viðskiptajöfrarnir sem að hruninu stóðu eru búnir að vera að gera undanfarið ár,og það litla sem eftir verður gætu íslenskir dómstólar ráðið við.Mörg ár eru síðan ég fór að setja spurningamerki við ýmsar ákvarðanir og framkvæmdir hins opinbera.Síðan eyðilögðu hrokafullir alþingismenn álit mitt á þeim vettvangi,og nú er réttarkerfið farið sömu leið.Lúmskan grun hef ég um, að allt þetta kerfi hafi ekki langan tíma til taka sig saman í andlitinu og sýna almenningi(það eru þeir sem allir vilja vera góðir við fyrir kosningar)að einhver dugur sé í þeim Ef ekki ,þá er meira í pípunum en búsáhaldabylting,það gæti orðið blóðugt.

Rúin trausti

Ég var að horfa á Silfrið og það rann allt í einu upp fyrir mér hversu alvarleg staða stjórnar og alþingis er.Það er ekki nóg með að hér sitji ríkisstjórn án þjóðar,hér situr ríkisstjórn án virðingar og eða trausts alþjóðasamfélagsins.Hálfu ári fyrir hrun vissi stjórnin hvert stefndi,hvað gerist,það er farið í áróðursherferð gegn þeim er vöruðu við hruninu og sendir herleiðangrar til að ljúga að "vinaþjóðunum".Í þessu ljósi undrar mig ekki að bretar skyldu setja á okkur hryðjuverkalög,í mínum huga eru þetta hryðjuverk.Og í þessu ljósi undrar mig að nokkur þjóð skuli ljá máls á samningum í hvaða málaflokki sem er meðan þessi ríkisstjórn situr.Þetta stjórnarfar líkist æ meir Mugabe nokkrum sem situr í algjörri afneitun,meðan þjóðin sveltur og hrynur niður úr sjúkdómum,og neitar að horfast í augu við staðreyndir.Á meðan situr "alþingi",sem virðist samansett af strengjabrúðum,og samþykkir hvaða vitleysu sem er frá ráðherrunum.Þetta er ekki mín stjórn,og ekki mitt alþingi,og ég legg það til að síðasta verk Georgs hershöfðingja verði að slá fyrir olíu á eitt varðskip og ferja þetta ógæfufólk til Zimbabve þar sem það á greinilega heima.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þórður Einarsson
Þórður Einarsson
Þriggja barna faðir fjögur barnabörn,vinnusamur,fáskiptinn,hljóðlátur og þolinmóður þar til nú.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband